Er lífið yndislegt?

29.11.06

Jæja mættur eina ferðina til hans Gylfa, reyndar er ég alltaf hjá honum, hann veit bara ekki af því. Við sitjum og horfum á Hornets taka á Kanadíska liðinu Toronto Raptors og sitjum með von í hjarta að Hornets taki þetta. Annars er það að frétta að ég er hættur að vinna á þessu ári, nú eiga próf og hug minn allan. Ég er búinn að plana það að reyna að taka allavega 3 klukkutíma undir hvert fag á dag, það þýðir 9 tímar á dag en helst vildi ég hafa það fjóra tíma á hvert fag. Þökk sé spússu minni og aðal hvetjara mínum að þá var sú hugmynd grafinn í sandinn um leið. Annars bið ég ykkur bara vel að lifa og vildi bara koma smá orðum á skjá fyrir ykkur svona til að viðhalda blogginu

- lífið er skipulagning í sandinum -

28.11.06

Don´t you wish your´girlfriend was hot like me, don´t ya. Tussu katta dúkkurnar (pussy cat dolls) með þvílíkan smell þarna á ferðinni. Ég og spússa mín Sandra sofnuðum með þetta lag á heilanum í gærkveldi eftir að hafa horft á myndina stefnumótakvikmynd (date movie). Nú er víst reglan að íslenska öll heiti á bíómyndum áður en maður segir þau á ensku. Er ekki enþá búinn að gera mér upp hvort ég sé á móti þessu frumvarpi menntamálaráðherra, held að ég sé að fara með rétt mál, um að hafa titilinn á íslensku. Mjög óþarft en þarft í senn. Annars er það helst að frétta að Ólafur og Dorrit sendu mér bréf í fyrradag og buðu mér í kaffi 1 des til heiðurs stúdentaráðs. Það væri þá í 3 skipti sem ég færi í kaffi þangað og líklega geri ég það. En eins og þeir segja það ,,þá er þegar þrennt er". Ef einhver veit um litla kósí 2-3 herbergja íbúð á nánst engan pening má hann endilega hringja eða gera vart við sig. Annars verð ég bara að segja að:

- lífið er yndislegt -

24.11.06

Jæja síðasta verkefni annarinnar búið. Sat sveittur fram að nótt til að skila því í dag en síðan var gefinn frestur til mánudags þannig að ég hef smá tíma til að laga það til og svona. Helgin verður róleg, smá lærdómur og video gláp svona rétt fyrir prófatörnina. Skildu próf annars vera einhvern tímann afnumin? Það væri ekki leiðinlegt, hafa bara mörg verkefni yfir önnina held að það sé besta leiðin til þess að læra. Annars hef ég voðalega lítið að segja, engar hugleiðingar eða neitt en það kemur. lifið annars bara heil....

- Lífið er rólegt -

23.11.06

Jæja það er komið að því, gosdósirnar eru byrjaðar að staflast upp á skrifborðinu, kennslubækur og föt út um allt gólf, myrkrið komið um 4 leytið og skeggið farið að vaxa meira en áður. Þetta getur aðeins þýtt eitt, það er komið desember og prófin fara að nálgast. Ég á að vera að skrifa rannsóknarskýrslu um leið og ég rita þessi orð, en ég ákvað að taka mér pásu. Eftir að ég skila skýrslunni á morgun tekur við endalaus próflestur fram að 21 desember en eftir það get ég nú sest niður og horft á eins og eina mynd. Those are the days of the old school yard.
Annars er ég bara kátur. Veit enþá ekkert hvað mig langar í jólagjöf en það sem verra er, er að ég veit ekkert í hverju ég á að fjárfesta handa frillu minni. Gæti gefið henni saumavél eða straujárn en líklega yrði ég að finna mér nýja frú eftir jól ef ég gerði það, og ekki er það vilji minn þannig að ég verð að finna eitthvað annað. Don´t worry be happy segi ég nú bara. En allavega passið ykkur á hálkunni og blásið rykinu af gluggaskónum því þeir fara að rölta niður blessaðir eftir 3 vikur.

- lífið er lag -

22.11.06

"Sit ég hér á baunasekk, sit ég hér í New Orleans" svona byrjar lag með rauðu heitu chili piprunum. Á vel við í dag vegna þess að ég sit hér heima hjá Gylfa og horfi á New Orleans Hornets (reyndar New Oklohoma í dag) etja kappi við Miami Heat. Það hefur lítið gerst þessa dagana, sit hérna með tognaðan nára, eða ég held að hann sé tognaður. Það snjóaði duglega á aðfaranótt sunnudags en ég var að vinna á leigubílnum akkurat þá nótt, erfið nótt. Ég og Sandra bíðum vongóð um að fá íbúð á stúdentagörðum og lægst höfum við lent í 32 sæti en erum komin upp í 35, krossleggið fingurnar endilega fyrir okkur.
Pælingin mín þessa vikuna er sú hvort að auglýsingar í útvarpi ættu ekki að vera kallaðar Eyrnlýsingar, þar sem að auglýsingar eru í sjónvarpi og maður sér þær, samanber líka gamla auglýsingamerkið með auganu hjá stöð tvö. Af hverju þá ekki eyrnlýsingar af því að maður heyrir þær en ekki sér. Nei bara að pæla, annars veit ég ekkert hvað mig langar í jólagjöf

- Lífið ER yndislegt -

21.11.06

I´m back baby!! jæja ég ætla að taka aðeins á í blogginu, var í síðustu prófatörn síðast þegar ég skrifaði og það er komið að nýrri törn þannig að kannski kominn tími til að blogga. Ætla samt ekkert að hafa þetta blogg langt né skemmtilegt, rétt að segja ykkur að ég er kominn aftur og er kominn til að vera í þetta skipti. Mun bæta við fólki á listan minn og gera þetta svolítið skemmtilegt. Með von um gott samstarf Bergvin. P.S. takk Esther fyrir að koma mér aftur af stað með því að updatea síðuna.

- lífið er yndislegt -